Ofsaveður

tryggja-ofsavedur.jpg

Um daginn þá kom hvellur hér á suðvesturhorninu. Ofsaveður gekk yfir með tilheyrandi vindhraða og tjóni. Ég fékk símhringingar eins og gengur og gerist þegar svona atburðir gerast, þar sem fólk hafði áhyggjur af því tjóni sem það lenti í við þessar aðstæður. Eitt málið var að einstaklingur var að ganga út úr íbúð og við það að koma út í veðurhaminn þá fuku gleraugun af honum og skemmdust.

Viðkomandi hafði innbúskaskó, sem er viðbót við heimilistryggingu hans. Þessi vátrygging tekur á svona skaða, reyndar þarf tjónið ekki annað að vera en skyndilegt þannig að þetta á að vera vátryggt.

Annað mál er að fyrirtæki á kerru sem í veðurhamnum færðist úr stað. Vitað er að vindhraði fór yfir 30 metra á sekúndu. Kerran endaði á bíl og skemmdi hann lítillega. Bíleigandi gerði kröfu á kerrueigandann og sagði að hann hafi ekki gengið nógu vel frá kerrunni þannig að tjónið varð.

Kerrueigandinn ber ekki ábyrgð á kerrunni þegar vindhraðinn fer yfir 28-29 metra á sekúndu þannig að bíleigandinn verður að bera tjónið sitt sjálfur. Ef hann er með kaskótryggingu þá tekur hún á tjóninu.

Ofsaverður sem þetta er innan skilmála kaskótryggingar en í því hættir ábyrgð annarra þar sem þeir eru taldir ekki geta hamið hlutina sína sökum veðurofsa.