Af Íþróttum ungmenna

tryggja-ithrottir-ungmenna.jpg

Ég hef starfað innan vébanda íþróttahreyfingarinnar um árabil. Lengst af við stjórnun á skíðadeild.  Þar var um gríðarlega öflugt barna- og unglingastarf að ræða, foreldrar barnanna voru á kafi í starfinu enda krefst slík iðkun mikils stuðnings foreldra eða annarra aðstandenda.  Hér er um að ræða æfinga – og keppnisferðir innanlands og utan, akstur á æfingar og ýmislegt fleira þessu tengt.  

Þar sem vátryggingar eru mínar ær og kýr þá hafði ég áhuga á að koma á hóptryggingum fyrir þau börn sem stunduðu æfingar og keppni.  Það er ekki um auðugan garð að gresja,  hvað vátryggingar varðar fyrir þennan hóp á hér á landi.  Ekki bætir úr að lítill áhugi er á þessum málum  hjá Íslensku vátryggingafélögum.

Það er nokkuð ljóst að börn sem stunda æfingar og keppni eiga á hættu að lenda í slysum  og oft er áhættan meiri hjá þessum hópi en hjá þeim sem ekki stunda íþróttir.  

En hvernig á að vátryggja börn í íþróttum?  Þeir skilmálar sem eru í boði,  miða allir að því að huga að framtíðar innkomu hjá þeim aðila sem stundar íþróttina.  Það er hægt að skipta þeim sem stunda æfingar og keppni í þrennt eftir eftir aldri.  Það eru þeir sem eru undir 16 ára aldri en þeir falla innan skilmála almennara fjölskyldutrygginga hjá vátryggingafélögunum. Síðan eru það börn og unglingar sem eru á aldrinum 16 til 18 ára.  Þegar 16. árinu er náð nær almenna fjölskyldutryggingin ekki yfir slys við æfingar og keppni.  Eftir að 18. ári er náð,  telst einstaklingur orðinn fullorðinn í skilningi laga, og þarf því að vátryggja sig sérstaklega.  

Þeir sem standa best að vígi í hverri íþrótt fyrir geta oft gert samninga í formi styrkja og stuðnings.  Í þeim er oft minnst á vátryggingar.  Þeir falla líka undir svokallaða ISI tryggingu. Hér um að ræða iðkendur sem eru 18 ára og eldri. Oftast er miðað bætur við launþegatrygginguna,  sem er samningur milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda.  Þetta helgast líklega af því að valkostir eru fáir.  Ég get ekki tekið undir það að launþegatryggingin sé eitthvert viðmið,  en örorkubætur hennar (miðað við núgildandi VR samning)  eru ágætar.  Ef um tímabundnar greiðslur er að ræða þá eru þær í engu samræmi við almennar launagreiðslur.

Ef aldurshópurinn 16-18 ára er skoðaður og hvaða vátryggingar standa honum til boða kemur í ljós að fáir kostir eru í boði.  Ef samningur við íþróttafélagið varðandi slysatryggingu er ekki í boði,  þá verður viðkomandi iðkandi að vera vátryggður sérstaklega af foreldri.  Fæstir á þessum aldri eru launþegar og því er talin lítil þörf á að vátryggja viðkomandi,  þar sem um litla áhættu sé að ræða.   Íslensku vátryggingafélögin eru öll með ákvæði í sínum fjölskyldutryggingum að þau vátryggi 16 ára og yngri við æfingar eða keppni, en samkvæmt þeim skilmálum nær hann ekki til 16-18 ára hópsins.  

Þar með er örorkutrygging 16-18 ekki til staðar nema það sé sérstaklega gengið frá því. Þetta er háalvarlegt mál og að mínu mati löstur á öllu starfi innan íþróttahreyfingarinnar.  Það þarf að loka þessu gati með einum eða öðrum hætti. Fyrir einhverjum árum þá miðaðist allt við 16 ára aldurinn en þar sem það hefur breyst er þessi hópur afskiptur.  Við höfum séð alvarleg slys með langvarandi afleiðingum hjá þessum aldurshópi þar sem setið var utan bótaréttar.

Svo eru það börnin undir 16 ára aldri.  Þau eru vátryggð með örorkuákvæði í fjölskyldu/heimilistryggingum.  Nú eru heimilistryggingar ekki skyldutrygging,  þannig að það er ekkert öryggi fyrir því,  að ef barn á þessum aldri slasast alvarlega við íþróttaiðkun hjá íþróttafélagi fái það bætur sem sá skilmáli gefur.  Ég hef, t.a.m, aldrei spurt foreldra barna sem stundaðu skíði að því hvort viðkomandi hafi slíka vátryggingu og/eða gert það að skyldu til að vera skráður til leiks.

Í samtali við Frímann Ara Ferdynandson framkvæmdastjóra Íþróttabandalags Reykjavíkur, þá taldi hann ekki þörf á hóptryggingu héraðssambandsins þegar ég bauð slíka hóptryggingu fyrir rúmlega tíu árum. Hann hafði það á orði að  fólk væri almennt með fjölskyldu/heimilistryggingu og væri því með vátryggingu fyrir alvarlegu slysi.  Það dugar ekki öllum, fer eftir aldri, auk þess er ekkert sem segir að þær vátryggingafjárhæðir sem þar eru í boði dugi fyrir tjóninu.  Svo eru ekki allir með slíkar vátryggingar eins og áður sagði.  Ég tala nú ekki um ef ný vara kemur á markaðinn sem undanskilur þessa áhættu alveg.

Nú er ÍSÍ með mikinn metnaði fyrir sínu starfi, og hefur m.a. lagt hart að íþróttafélögum að uppfylla ákveðið verklag og bestun í sínu starfi til að falla undir þá skilgreiningu að vera „Fyrirmyndar Íþróttafélag“  Þetta er að sjálfsögðu virðingarvert og til eftirbreytni en betur má ef duga skal.   Slys á einstaklingi sem stundar íþróttir til æfinga og keppni og/eða eða starfar við þær sem sjálfboðaliði er vátryggjanleg áhætta hjá því íþróttafélagi sem um ræðir.

Nú er spurningin hvernig á slysatrygging sem íþróttafélag vátryggir sína félagsmenn fyrir að líta út.

Það eru tvær grundvallar áhættur sem um ræðir.

Annars vegar tímabundin áhætta og hins vegar varanleg örorka.  

Slys er í eðli sínu ófyrirséð og er því nánast aldrei undirbúið eða með tilbúna áætlun, sérstaklega ef tjón kemur til með að breyta lífsviðurværi og kallar á breytingu á umhverfi til lengri tíma litið. 

Það má líka spyrja sig hversu langt almenn hóptrygging á að fara, hversu  djúpt á að fara ofan í slíka þætti, en búa þarf til almennt skapalón sem hentað getur sem flestum.  Það er alltaf hægt að vátryggja sig sérstaklega ef aðstæður hvers og eins kalla það fram.

Mitt mat er að sá sem fer í íþróttastarf hjá íþróttafélagi eigi að vera vátryggður fyrir örorkutjóni að einhverri lágmarks upphæð.  Upphæðin þarf að vera hugsuð til að milda afleiðingar alvarlegs atburðar,  hugsuð til að aðlagast umhverfi tjónþola að breyttum aðstæðum.  Vátryggingarfjárhæðin þyrfti því að vera næg til að standa straum af þessu miðað við eðlilegar forsendur og afkomu tjónþola næstu árin.

Ég er ósammála vátryggingafélögunum um að tímabundið tekjutap sé ekki vátryggjanlegt hjá börnum í alvarlegu slysi.   Vandamálið við alvarlegt slys er,  að ef slíkt gerist þá verður aðstandandi,  foreldri eða einhver nákominn að taka sér frí og sinna sínu barni eða skjólstæðingi eftir aðstæðum.  Þannig þarf umönnun að vera rausnarlega vátryggð.  Þar erum við að tala um upphæðir sem geta greitt viðkomandi laun tímabundið á meðan barnið er að ná bata og þarf á aðstoð aðstandanda að halda.   Það er sem sagt verið að vátryggja tímabundið tekjutap foreldra eða aðstandenda. 

Það er augljóslega rangt að ef barn slasast alvarlega sé ekki þörf á tímabundnum greiðslum.  Barnið þarf þjónustu sem verður ekki veitt nema af aðstandanda.

Og svona til forustu ÍSÍ, íþróttafélögin eru ekki til fyrirmyndar nema vátryggingar þeirra, sem eru innan þeirra vébanda virka,  alveg sama hvaða forsendur aðrar eru til staðar.

 

Smári Ríkarðsson